Það var ákveðið á síðasta fundi Æskunnar að bæta við nefndum til að efla starfið og gera það enn fjölbreyttara.
Hugmyndin er einföld: því fleiri – því betra starf!
Æskan er að stækka og með Æskuheimilinu hefur skapast nýr möguleiki á lifandi félagsstarfi og samveru fyrir allt samfélagið. Það er mikil vinna að halda úti flottu og fjölbreyttu starfi – og eins og alltaf er stjórnin skipuð sjálfboðaliðum. Stærra starf þýðir meiri vinna, og ekki viljum við brenna út – þannig að við leitum að fleiri höndum og góðu fólki til liðs við okkur.
👉 Með því að skrá þig í nefnd ertu ekki að skuldbinda þig í stjórn Æskunnar, heldur færð tækifæri til að vera með, koma þínum hugmyndum að og taka þátt í að móta framtíð félagsins.
Nefndarseta er bundin í eitt ár – og við lofum góðu samstarfi, hlátri og samhug.
Það er hægt að gera svo ótrúlega margt í þessu flotta samfélagi okkar.
Komdu og vertu með – gerum eitthvað skemmtilegt saman fyrir börnin, krakkana, unglingana og alla aðra!
🌿 Við leitum eftir sjálfboðaliðum í eftirfarandi nefndir:
Styrkjanefnd – sækir um styrki og heldur utan um umsóknir
Viðburðanefnd – skipuleggur viðburði og skemmtanir
Æskulýðsnefnd – skipuleggur starf fyrir börn og unglinga
Fræðslunefnd – finnur og skipuleggur fræðslu og námskeið
Áhugasamir geta sent okkur línu á aeskan@umse.is 📩
Þann 30. ágúst hélt UMF. Æskan hin árlega Æskudag – uppskeruhátíð félagsins þar sem við fögnuðum frábæru sumri og samveru í íþróttum og gleði.
Þrátt fyrir vætu úr lofti mættu um 70 börn og fullorðnir á Æskuvöllinn þar sem stemningin var engu að síður létt og góð!
Á dagskránni voru skemmtilegar keppnir fyrir alla aldurshópa:
🏃♀️ Börnin kepptu í 60 metra spretthlaupi og boltakasti
💪 Unglingar reyndu sig í langstökki og spjótkasti
🏅 Fullorðnir tóku þátt í 100 metra hlaupi og spjótkasti
Eftir keppnirnar var haldið í pylsuhlaðborð í boði Kjarnafæðis, og ekki skemmdi fyrir að Binni okkar lánaði tjöld sem héldu bæði pylsum og fólki þurru.
Í ár var Kvennfélagið með glæsilegan kökubasar, sem að sjálfsögðu sló í gegn.
Við þökkum öllum sem komu, kepptu, hjálpuðu til og nutu dagsins með okkur – svona dagar minna okkur á hvers vegna við elskum starfið í Æskunni 💚
Til stendur að halda knattspyrnumót UMSE á íþróttavellinum á Hrafnagili, fimmtudaginn 4. september kl. 17:00.
Aðalmarkmið mótsins er sem fyrr að börn og unglingar á svæðinu sem áhuga hafa á fótbolta komi saman, kynnist og skemmti sér.
Stefnt er að því að keppa í eftirfarandi flokkum ef næg þátttaka fæst (blönduð lið):
8. flokkur (Börn fædd 2020 og síðar). 3 í hverju liði
7. flokkur (Börn fædd 2018-2019). 5 í hverju liði
6. flokkur (Börn fædd 2016-2017). 5 í hverju liði
5. flokkur (Börn fædd 2014-2015). 5 í hverju liði
4. flokkur (Börn fædd 2012--2013). 7 í hverju liði
(allt fer þetta auðvitað eftir skráningu)
Mögulega þarf að setja saman einhverja flokka eftir skráningu.
Til að hægt sé að raða niður leikjum og ganga frá pöntun á viðurkenningum er mikilvægt að skráningar berist í síðasta lagi þriðjudaginn 2. september n.k.
Gert er ráð fyrir að mótsgjaldið verði ca. 1.500 kr. á hvern þátttakanda. Innifalið í þátttökugjaldi eru þátttökuverðlaun, pizzasneið og svaladrykkur.
Félagsgjöld Æskunnar hafa nú verið send út í heimabanka. Greiðslan er valkvæð, en hvert framlag skiptir máli og styður við gjaldfrjálst og fjölbreytt starf fyrir börn, ungmenni og samfélagið allt.
Við byggjum á eldri félagaskrám og upplýsingum úr samfélaginu, svo það getur komið fyrir að reikningar berist til einstaklinga sem töldu sig ekki lengur skráða.
Ef þú vilt ekki greiða, eða vilt láta taka þig af skrá, þá geturðu sent okkur línu á aeskan@umse.is – við kippum því þá einfaldlega út.
Takk fyrir að styðja við starfið – með ykkar þátttöku er þetta allt hægt 💛
Seinustu þriðjudaga kl. 13–17 hefur Æskuheimilið verið opið fyrir eldri borgara sem vilja njóta samveru, kaffi og góðs spjalls í hlýlegu umhverfi.
Hvort sem þú vilt spila, ræða fréttir dagsins eða bara setjast niður með kaffibolla, þá er alltaf pláss fyrir þig.
Reynum að uppfæra reglulega en þessi dagsskrá frá Apríl sýnir um það bil hvað er í gangi og hvenær.
Ath. Sumartafla er væntanleg og getur planið eitthvað raskast! Deildirnar eru margar með Facebook hóp fyrir sína iðkendur og þar er helst að finna nýjustu upplýsingar.
Hafðu samband við okkur á aeskan@umse.is
Kæru ströndungar!
Félagsgjöld Æskunnar hafa nú verið send út í heimabanka. Greiðslan er valkvæð en send út í hefðbundnu félagsgjalda formi, ef þú vilt ekki vera í félaginu að þá mátt þú endilega senda okkur pó en hvert framlag styrkir frábært starf sem annars væri ekki mögulegt.
Við viljum líka heyra frá ykkur! Hefurðu hugmynd að fyrirlestri, fræðslu eða viðburði sem gæti átt heima í Æskuheimilinu? Láttu okkur vita – það er alltaf pláss fyrir góðar hugmyndir
Við erum jafnframt að uppfæra heimasíðuna okkar og tökum fagnandi á móti myndum, upplýsingum og efni frá ykkur – sendið okkur á aeskan@umse.is.